Sigurrós

Lífið er dans á rósum!!

mánudagur, mars 08, 2004

Litla systir mín sendi mér sms í dag og bað mig að skilgreina ást. Það var nú orð sem ég hafði ekki hugsað lengi um og fékk mig til að hugsa um ástina.
Ekki er auðvelt að skilgreina ástina þar sem hún getur verið mjög persónubundin og túlkuð á mismunandi hátt. Við elskum hvern og einn einstakling í lífi okkar á sérstakan hátt og eru þessar manneskjur mismikilvægar fyrir okkur.
Ást er yndisleg tilfinning og er til margs konar ást, vinaást, foreldraást, ást elskenda o.fl.
En sú ást sem er eflaust fyrirferðamest í lífi manna er rómantíska ástin, ást elskenda. Hún getur fært mann upp til himnaríkis, en einnig niður til helvítis. Ástin lætur mann gera og segja alls konar vitlausa hluti. En það er eitthvað einstakt við það að vera elskaður og að elska einhverja manneskju útaf lífinu.
Langt er síðan ástin bankaði uppá hjá mér, en hún hefur gert það og er það langt síðan. Ég man hvernig það var þegar maður varð ástfangin fyrst. Ung og vitlaus hleypti ég mér í faðm ástarinnar og tók hún á móti mér opnum örmum. Eitt lítið augnaskot, smábros sem gat gert svartan dag bjartari en allt bjart. En þar sem ástin er einhver sú besta tilfinning sem hægt er að finna, er ástarsorg einhver sú erfiðasta sem ég hef kynnst. Úr himnaríki lá leiðin í djúpt svarthol, þar sem maður vorkenndi sjálfum sér og fannst lífið vera búið. En með tímanum var maður komin aftur í himnaríki, bara einn. Eftir þessa ferð í myrkrinu og ljósinu kemur maður upp á báðum fótum í tilveru þar sem allt er bæði bjart og dimmt, en fyrir vikið er maður reynsluríkari og sterkari sem einstaklingur þar sem þeir ástvinir sem eru til staðar geta gefið manni svo mikið.
Og vonandi einhvern tímann mun ástarengillinn vitja mín aftur og senda mér manneskju sem lætur magann fara í hringi bara við það að brosa.
En þangað til mun ég njóta lífsins sem einhleyp stúdentína, horfandi á alla sætu strákana sem verða á vegum mínum.
Það er gott að elska!!