Sigurrós

Lífið er dans á rósum!!

mánudagur, apríl 12, 2004

Lífið er dásamlegt!
Á leiðinni heim heyrði ég þetta lag með Bubba í útvarpinu. Og sönn eru þau orð, lífið er dásamlegt!!
Allavega er mitt líf dásamlegt, hvað er yndislegra en að vera ung og frjáls! Að vera laus undan fortíðardraugum og vandamálum og njóta lífsins, gera það sem maður vill. Auðvitað er maður aldrei fullkomnlega frjáls, en að búa á þessu fallega landi og vera að gera það sem best hentar manni, það er mjög góð tilfinning. Að komast úr borgarmenningunni, njóta náttúrunnar eins og hún gerist best er fullkomnun. Að labba á spegilsléttum sandinum með vindinn í hárinu og horfandi út í eilífðina, er einstakt. Að horfa á sjóinn slá klettana, náttúruna í sínu fínasta pússi. Þá virðist maður sjálfur vera eitthvað svo lítill, bara ein lítil sál flögrandi um í þessu stóra heimi. Og öll vandamál hverfa, bara þú og sjórinn og allt annað skiptir engu máli.
En það sem gerir lífið ríkt er fólkið í kringum mann, þá sérstaklega fjölskyldan. Ég á stóra og skrýtna fjölskyldu, en hún er samt sem áður fjölskyldan mín og gerir mitt líf ríkara en það væri án hennar. Ég hugsaði í dag hvar ég væri ef ég ætti hana ekki að. Ég á ekki venjulega fjölskyldu, en það gerir hana bara enn sérstakari.
Góða nótt íslenskt fólk og sofið rótt.