Sigurrós

Lífið er dans á rósum!!

þriðjudagur, janúar 25, 2005

"Markmið Háskóla Íslands með gerð jafnréttisáætlunar er að tryggja jafnrétti og jafna stöðu kynjanna." Öll erum við hlynnt jafnrétti kynjanna á öllum sviðum samfélagsins, en hvað með jafnrétti meðal stúdenta almennt í Háskóla Íslands? Borið hefur á því að stúdentar í mismunandi deildum hafa misgóða aðstöðu fyrir nám sitt og félagsstörf. Á meðan stúdentar í ónefndum deildum skólans hafa mjög góða lesaðstöðu útaf fyrir sig eru aðrar deildir sem hvergi eiga heima!
Hugvísindadeild er nýtt nafn á deildinni sem mín skor tilheyrir. Innan þeirrar deildar eru tungumálaskorir ýmsar, heimspeki, sagnfræði, bókmenntir o.fl. Fyrir margar þessar skorir er enginn aðstaða nema bókhlaðan sem er vissulega fín aðstaða, en betra væri fyrir þessar skorir að hafa lesaðstöðu í sínu húsi og þar sem góð handbókaaðstaða er til staðar. Einnig að mest öll kennsla þessara skora myndi vera á sama stað, í sama húsnæði.
Mín kynslóð er alin upp við kjörorðin mennt er máttur, sem hefur gert það að verkum að ásókn í háskólanám hefur aukist til muna undanfarin ár. Hvort það sé aðalástæðan ætla ég ekki að fullyrða, en fjölgun stúdenta í háskólanám er staðreynd.
En fjárhagsstaða háskólans er sem aldrei fyrr mjög bágstödd og bitnar það mest á stúdentum og náminu, ekki bara fjárhagslega heldur líka fræðilega séð. Í Hugvísindadeild er verið að spara og spara og þar sem mesti kostnaður deildarinnar fer í launakostnað hefur kennurum fækkað og úrval námskeiða orðið bágborið eða námskeið sem kynna nýung í fræðigreininni hafa verið lögð niður vegna fjárskorts.
Ný öld er komin, nýjar áherslur í samfélaginu og því þarf að fara að huga að nýrri framtíð Háskóla Íslands. Stúdentar vilja jafnrétti meðal sín allra og því þarf að gera vel við allar deildir Háskólans, ekki bara vel valdar deildir. Ef viljinn er fyrir hendi eru peningar minnsta málið.
Þetta ætti að kveikja í fólki í háskólanámi til að verulega fara að velta ýmsum spurningum fyrir sér og láta í sér heyra ef það er ósátt. Ekki líða í gegnum nám og hafa margar skoðanir á hlutunum sem ná aldrei lengra en til vina og vandamanna. Speak up people!!