Páskahelgin mín einkenndist ekki af íhugun um Jesú og upprisu hans, páskaeggjaáti eða einhverju sem tengist páskunum á táknrænan hátt.
Páskahelgin mín fór fremur meira í það að velta ástarmálum fyrir mér. Já, þær voru nokkrar vinkonurnar sem leituðu eftir fróðleik mínum um hitt kynið, samskiptum við það og fengu ráðleggingar t.d. við ástarsorg o.fl.
Á laugardagskvöldinu leigði ég mér mjög týpíska ástarmynd, mjög rómantísk og hugljúf og ég virkilega náði trúnni á hina eilífu, góðu og rómantísku ást sem sigrað allt ef viljinn er fyrir hendi. Sjáið til, þið sem ekki þekkjið til, lifi ég í miklum ævintýraheimi. Ég trúi á ævintýri eins og Öskubusku og Mjallhvíti þar sem hinn fagri prins á hvíta hestinum finni prinsessu sína og þau lifa hamingjusöm til eilífarnóns.
Sú heimsmynd entist ekki lengi. Á sunnudeginum, páskadegi sjálfum, leiddist mér óneitanlega og skellti í spilarann sex in the city þáttum, nánar tiltekið fyrstu seríu. Snilldarþættir og mjög kómískir á köflum, en hafa svolítið ó-rómantískt álit á ástarmálum. Hugmyndir þáttanna eru nútímalegar og margt sem kemur fyrir persónur þáttanna er eitthvað sem við einhleypa fólk könnumst við á einhvern hátt. Aðalumræðuefni þáttanna er auðvitað samskipti kynjanna og þá helst leikni þeirra í bólfimi. Umræðuefni þessa þátta sem ég horfði á var t.d. einkvæni, aldur og að vera einhleypur á vissum aldri, fyrirsætur, gagnkynhneigð, samkynhneigð og margt fleira.
Af þessu efni, sjónvarpsefni, fór ég að velta fyrir mér hvar ástin stæði í nútímasamfélagi. Er ég ein um það að finnast einn lífsförunautur vera ágætis uppskera eða er það orðið almennt hjá fólki að kanna markaðinn áður en í hnapphelduna er gengið? Er kynlíf orðið tól "vina" sem vilja kynnast meira?
Kannski er ég mjög gamaldags, hef nú fengið að heyra það ansi oft undanfarið, en mín skoðun er sú að "ástarsamband" snúist um gagnkvæma ást frá báðum aðilum og að það sé ekki bara um líkamlega hlutann. Ekki öðlast menn reynslu með vissum fjölda rekkjunauta heldur er dýrmætara að þroskast með einum einstaklingi og kynnast honum frá öllum köntum. Jú ég hef mína rómantísku sýn á ástinni og samböndum sem slíkum, prinsinn kemur og finnur sína prinsessu og þau lifa hamingjusöm til eilífðar. Call me foolish, en þannig er ég.
Er ástin í hættu?
<< Home