Sigurrós

Lífið er dans á rósum!!

miðvikudagur, maí 04, 2005

Í gær hlýddi ég prédikun séra Pálma Matthíassonar, sóknarprests í Bústaðarkirkju. Prédikunin var góð, hún fjallaði um það að gefa og þiggja, og svo hamingjuna. Hann talaði um að Íslendingar væru með hamingjusömustu þjóða meðal jarðbúa. Ég fór þá að velta fyrir mér hvernig menn mæla hamingjuna, út frá hverju telur fólk sig hafa öðlast hamingjuna?
Ef Íslendingar eru eins hamingjusamir og þeir segjast vera, af hverju á þá þjóðin heimsmet í notkun geðlyfja? Sá það á fyrirsögn fréttablaðsins í dag að Íslendingar ættu heimsmet í notkun geðlyfja fyrir börn vegna athyglisbrests eða ofvirkni.
Íslendingar verða sífellt meir og meir uppteknir af því að eignast hluti, vinna alltof mikið til þess að eignast flotta húsið í úthverfinu, dýra nýja bílinn og geta gefið börnum sínum allt það sem þau óska eftir. Hver vill ekki eignast allt það sem lífið hefur uppá að bjóða?
En er það fólk hamingjusamt sem á alla þá hluti sem það hefur dreymt um og meira til? Einhver staðar las ég það að ríkt fólk væri mun óhamingjusamara en fátækt fólk.
Með auknum hraða lífsins í hinum vestræna heimi fer minna fyrir hinum mannlegu þáttum og fólk einangrast gríðarlega. Fólk hefur ekki tíma fyrir eitt né neitt, það er svo upptekið að afla pening til að fjármagna eyðslu sína.
Svo enda börnin á lyfjum, enginn hefur hvort eð er tíma til að sinna þeim.
Erum við hamingjusöm þjóð?