Sigurrós

Lífið er dans á rósum!!

miðvikudagur, maí 11, 2005

Í leti minni í lærdómnum hef ég nú verið að skoða alls konar heimasíður um allt og ekkert. Sit hér með fullt af bókum og glósum til að fara yfir og ætti að vera að lesa fyrir próf, en í stað þess geri ég allt annað en það sem ég á að vera að gera. Kannski að einhver kannist við slíka iðjusemi.
M.a. kíkti ég inn á heimasíðu Heimdallar, félag ungra sjálfstæðismanna og las þar grein eftir ungan mann um togstreituna á milli vinstri og hægri manna. Til þess að forðast enn meir um lærdóminn ákvað ég að tjá mig aðeins um þessa grein hér.
Blessaður ung-lingurinn, ef segja má svo, byrjar á því að tala um bölsýni vinstri-manna, eða það sem hann kallar uppgjafar-sósíalista, og lýsingar þeirra á íslenskum nútíma. Ég er sammála manninum um það að oft er dregin upp svartari mynd af raunveruleikanum en raun ber vitni af stjórnmálamönnum, við höfum það flest okkar mjög gott hér á landi, en alltaf má fara betur.
Mér leiðist þó orðalagið hjá blessuðum drengnum, afturhaldskommatittir, og það með vitlausri fleirtöluendingu á þeim sem hann nefnir síðan nútímalegum frjálslyndum jafnaðarmönnum. Hann segir að þessi flokkur manna kenni kapítalismanum um allt illt í heiminum og séu blindir fyrir þeim framförum sem hafa átt sér stað í landinu síðastliðinn 14 ár. Pjakkurinn segir jafnframt að stjórnlyndi hafi náð tökum á stjórnmálamönnum, jafnt hægri og vinstri, og telur þá vera komna inn á hvors annars svæði með hugmyndafræði, t.d. frelsi einstaklingsins. Völd og peninga telur hann hafa náð tökum á sjálfstæðismönnum sem sitja á þingi og megi það fara til batnaðar hjá blessuðum flokksmönnum.
Fröken leti var bæði sammála og ósammála greinarhöfundi um nokkur mál. T.d. held ég að allir landsmenn geti jánkað við því að framför hafa verið í landinu á vissum sviðum, t.d. efnahagi. En það sem ég tel sjálfstæðismenn, og þá aðallega karlmenn, vera blinda á er mannlegi þátturinn og hlutverk hans í samfélaginu.
Maðurinn segir að núverandi stjórnvöld hafi gert Ísland með því ríkasta ríki í V.-Evrópu frá því að hafa verið með þeim fátækustu. Ég er ekki það fróð um þau mál svo ég læt það liggja milli steina að gagnrýna þá fullyrðingu. En eitt er ég ósátt við, ef Ísland er orðið eitt ríkasta land Vesturheimsins, hví hefur þá fátækt aukist til muna hér á landi? Hann gleymir líka öllum þeim atriðum sem hafa farið aftur á Íslandi og tengist ekki bönkum, fisknum eða fyrirtækjum.
Alvarlegasta vandamál Íslendinga í dag held ég að tengist þeim mannlegu þáttum eins og virðing, samkennd og skilningur. Svo virðist vera að ýmsar starfsstéttir hér á landi séu ekki mikils metnar, t.d. kennarastéttin. Og menntun, hvað finnst sjálfstæðismönnum um menntun? Það hafa þeir sýnt með því að gera t.d. háskólann að lélegri skóla vegna fjárskorts frá ríkinu. Svo vilja þeir leysa vandamálin með því að hver hjálpi sér. Hvernig á t.d. manneskja, sem ekki getur unnið vegna andlegrar eða líkamlegrar vanheilsu, að bjarga sjálfri sér? Og í þokkabót fær hún ekki mikið framlag frá ríkinu til að lifa sómsamlegu lífi.
Pjakkurinn talar um frelsi einstaklingsins og minnka megi afskipti ríksins. En ég spyr á móti, á ríkið gjörsamlega að hafa engin afskipti? Hvenær er einstaklingur svo frjáls að hann geti gert allt sem hann vill? Við erum ekki algjörlega frjáls, við þurfum alltaf að beygja okkur undir lög og reglur samfélagsins. Og þingið setur slík lög, þ.e. þingmenn og þeir sem ráða ríkjum í landinu.
Því tel ég það líka vera hlutverk ríkisins að búa að góðri þjónustu fyrir þegna sína, þ.e. umönnun og fræðslu. Þessir tveir þættir hafa verið algjörlega undir hjá hinum ríku fínu sjálfstæðismönnum.
Þó svo að sjálfstæðismenn hafa gert margt gott fyrir land og þjóð, má ekki gleyma að margt hefur farið aftur og verðum við að bæta það sem betur má fara í málefnum þeim er ég ræddi um hér ofar. Þess vegna höfum við lýðræði og tel það mikilvægt að allar skoðanir manna komi fram á þingi, og hlutverk minnihlutans er að benda á það sem betur má fara af þeim sem stjórna og koma með hugmyndir um aðrar leiðir.
Jæja, lærdómurinn bíður....