Sigurrós

Lífið er dans á rósum!!

laugardagur, maí 28, 2005

Þó svo að skólinn sé búinn er ekkert minna að gera hjá manni, bara mun skemmtilegra og líflegra þeir hlutir sem ég er að gera núna. Ég er loksins sloppin úr klóm hlöðunnar og það heil á húfi, ósködduð á líkama og sál. Þó mun ég heimsækja ljónið af og til í sumar, verð sniglandi um í málfræðideildinni leitandi að eftirsóknaverðandi lesefni fyrir tuðruna mína (þ.e. lokaritgerðina). Já, köllum hana bara tuðru framvegis, gott orð.
Ég fór í bókabúð í dag, það á ekki að hleypa mér inní bókabúðir lengur. Ég er þekkt fyrir að eiga ansi mörg sjöl og slæður, einnig þekkt fyrir að eiga fleiri en fimm töskur(á orðið um 20 töskur og finnst samt vanta í safnið!!). Nýja ástfóstur mitt er bækur, ég bara get ekki hætt að kaupa bækur.
Allavega, í dag fór ég í bókabúð, þurfti að fara þangað inn til að kaupa útskriftargjöf fyrir frænku-nöfnu mína, stúdínuna. Þegar þangað var komið inn litaðist ég um eftir góðri gjöf handa stúdínunni, en slíkt var hægara sagt en gert því ég var farin að líta girndaraugum á bækur fyrir sjálfa mig og farin að velta því fyrir mér hvernig ég gæti tínt saman þeim fáu aurum sem voru í vasa mínum svo ég gæti glatt mitt eigið hjarta og keypt mér bók. Þarna voru bækur eins og Hugmyndir sem breyttu heiminum, Trúarbrögð heims, ljóðabækur og ég veit ekki hvað og hvað.
Ég ákvað að slá í fésið á mér, gerði það, og valdi góða bók fyrir stúdínu frænku.
Og góð bók var það, valin ljóð kvenna, valin af Silju Aðalsteinsdóttir. Ég gekk út með bros á vör og ánægð með sjálfa mig að freistast ekki að eyða þeim peningum sem ekki ég á í bækur. Vonum bara að frænka sé ánægð með afrakstur þessarar harmþrungu búðarferðar.