Sigurrós

Lífið er dans á rósum!!

sunnudagur, febrúar 06, 2005

Ég gekk út með tárin í augnarhvörmunum, kvöldið var stillt og kalt var í vindi. Depurð fylgdi mér en samt tilhlökkun, tilhlökkun fyrir hönd vinkonu minnar sem nú er komin til Spánar og ætlar að vera þar næsta hálfa árið eða svo og stúdera spönsku. Hennar verður sárt saknað hér uppá fróninu í óveðrinu, en ekki er ég hissa á að veðurguðirnir hella tárum og lemja glugga landsmanna með vindi og regni þetta kvöldið. En hún Svanahvíta mín fagra mun svo sannarlega eiga skemmtilega tíma framundan og lífsreynslu sem mun aldrei hverfa úr minningum hennar.
Fyrir nokkrum árum síðan var ég vinafá ung stúlka og lífið var flókið og erfitt fyrir mér. Lífið hefur ekkert orðið auðveldara eða léttara, en ríkari er ég af vinum sem fylla líf mitt með gleði og fjölbreytileika. Með árunum hef ég kynnst fólki sem eru í dag mínir bestu vinir og aldrei átti ég von á því að eignast svona marga góða vini á svo stuttum tíma, en með öllu slæmu skal alltaf eitthvað gott verða og svo sannarlega á það við um mig.
Elsku vinirnir mínir, takk fyrir að vera vinir mínir og að vera svona yndislegir.