Sigurrós

Lífið er dans á rósum!!

sunnudagur, ágúst 15, 2004

Mikilfengleg er náttúra þessa lands og margbreytileikinn óendanlegur. Vinkona mín frá Noregi kom hér til lands fyrir stuttu og fór ég með hana hringinn í kringum landið. Við heimsóttum staði eins og Hljóðakletti, Ásbyrgi, Mývatn, Dimmuborgir, Jökulsárlón, Skógarfoss, Dettifoss og lengi mætti vel telja. Það er ótrúlegt hvað náttúran hefur mikil áhrif á mannskepnuna, alltaf þegar ég er stödd á stöðum sem slíkum fyllist ég óskiljanlegri andgift og áhyggjur hversdagsins líða hjá þegar maður sér jökulsvatnið streyma með ofsahraða og straumi fram af klettum og gljúfrum, margbreytilegt bergið koma fram á misjafnan hátt og jaka koma fram af jöklum þessa lands og mynda hið undurfagra jökulsárlón. Það jafnast ekkert á við íslenska náttúru og furða ég mig alltaf á því þegar á staði sem þessa er farið hversu sjaldan ég heimsæki fegurð og stolt Íslendinga. Ég áttaði mig á þessu þegar ég sýndi henni borgina, og þó svo að Reykjavík sé falleg borg er náttúran það sem Íslendingar hafa að sýna þegar erlendir menn koma hingað. Byggingar og hlutir gerðir af mönnum komast ekki í hálfkvist við náttúrufegurðina, óreglu hennar en einnig reglusemi og óútskýranlegum öflum hennar. Við búum á landi andstæðanna, heitt og kalt, svart og hvítt, vatns og þurrlendis og ekki eru margir staðir í heiminum sem bjóða upp á slíka fegurð og auðn sem land okkar hefur.
Ísland, sækjum það heim!