Sigurrós

Lífið er dans á rósum!!

miðvikudagur, febrúar 22, 2006

Höfða til ungs fólks!!
Þegar ég var unglingur leiddist mér öll sú umræða sem var í gangi um ungt fólk og yfirleitt einkenndist sú umræða um vandamál og neikvæðu hliðar þessa hóps.
Ég var fremur stilltur unglingur, lenti aldrei í neinum vandræðum, gekk vel í skóla, átti góða vini og æfði minn ballet. Ég skildi aldrei þessa umræðu um kynlíf, dóp og áfengi því það var svo fjarri mínum veruleika. Kannski var ég fremur einfaldur unglingur, en þegar ég var á þeim aldri var ég bara að hugsa um allt aðra hluti en það sem virtist einkenna unglinga að mati fjölmiðla og fleira.
Nú á dögum er sífellt verið að "höfða" til ungs fólks, það eru auglýsingar, tímarit, þættir og guð má vita hvað meira. Sífellt virðist þó sú umræða snúast um hvað sé nýjast í tísku, g-strengi, kynlíf og margt fleira. Umræðan og sú markaðsvara sem á að höfða til ungs fólks er á svo lágu plani að segja mætti að markaðsfyrirtæki álíti ungt fólk hreinlega of heimskt.
Tökum dæmi. Bankarnir gera í því að veiða viðskiptavini til sín. Þegar systir mín var 18 ára fyrir nokkru sendi bankinn hennar henni kökudeig (þurrefna deig). Annar banki sendi nýstúdentum brúnkuklút. Ég veit ekki með ykkur, en mér finnst þessi leið bankana vera fyrir neðan allar hellur. Hví gáfu þeir ekki krökkunum kost á bókhaldsnámskeiði? Eða kynna þeim fyrir því hvað það er að vera orðin nýstúdent, lögráða og sjálfráða með tilliti til tekna, lána o.s.frv.?
Hættum að gera lítið úr ungu fólki og færum umræðuna á aðeins hærra plan.

föstudagur, febrúar 17, 2006

Ég komst í feitt áðan, fann gotneska orðabók á netinu þegar ég og Tinna vorum að gera verkefni. Best að skella stúlkunni inná tenglana mína. En þessi orðabók er að sjálfsögðu hin mesti happafengur, ekki er þetta neitt venjuleg orðabók heldur er þar að finna gullkorn af bestu tagi. Gotneska er nefnilega ansi skemmtilegt tungumál og margt hægt að læra af henni.
En jæja, vísindin bíða!!

þriðjudagur, febrúar 14, 2006

Er lífið ekki dásamlegt? Veðrið leikur við okkur höfuðborgarbúa þessa dagana og nýttum við Svavar okkur það í gær, fórum í göngutúr meðfram Ægissíðunni í þessu líka góða veðri.
Lífið hefur snúist um póli-tík undanfarnar vikur og hef ég lítið sem ekkert gert í ritgerðinni minni. Ég er reyndar farin að velta því fyrir mér hvað ég sé nákvæmlega að gera hér í skólanum, því ég geri ekki annað en að félagsmál-ast. En með góðu gengi verður ritgerðin númer eitt, tvö og þrjú næstu vikurnar.
Annars er allt við hið sama hjá mér. Ég hef bætt við einum tengli hjá mér. HúnSóley frænka mín er komin til Guatemala og nýtur lífsins þar, annað en hún Inga móðir hennar sem er víst ein taugahrúga í Hafnarfirðinum að sögn móður minnar. En allavega kíkið á þetta, hún er nú ekki frænka mín fyrir ekki neitt!!
hasta la vista babí....

mánudagur, febrúar 06, 2006

Skólagjöld. Sumir telja að skólagjöld séu af hinu góða, sumir álíta svo að stúdentar muni meta nám sitt mun betur ef þeir greiða fyrir það. Sumir segja að stúdentar í tannlæknanámi eigi að borga meira fyrir nám sitt en stúdentar í almennum málvísindum og öðrum hugvísindagreinum svo tekin séu dæmi.
Aðrir greina á milli náms sem er arðbært og óarðbært. Aðrir álíta að nám í samkeppnisgreinum líkt og viðskiptafræði, lögfræði o.fl. sé verðmætara en félagsvísindagreinar svo tekið sé dæmi. Aðrir segja að hugvísindi og félagsvísindi séu dútl-greinar og krefjist ekki eins mikillar vinnu af stúdent og lögfræði, læknisfræði eða hagfræði.
Þessir sumir og aðrir eru algjörlega ósammála mér. Eða ég ósammála þeim.
Það er hlutverk Háskóla Íslands að stuðla að akademísku samfélagi, fræða almenning og stúdenta og rannsaka öll mál samfélagsins sem tengjast þeim fræðigreinum sem eru stundaðar við skólann.
Ég vil að allir eigi jafnan aðgang að námi í Háskóla Íslands. Allt nám við Háskóla Íslands er jafn gott, allt nám við Háskóla Íslands er verðmætt og jafn verðmætt.
Ég er þreytt á þeirri skoðun megin þorra landans að hugvísindi séu annars flokks, séu auðveld og ágætis áhugamál. Ég er þreytt á því að fólk líti á alla hluti eftir verðmæti þess í peningum. Við eigum að stuðla að bættu almennu samfélagi og við gerum það með því að rækta manninn, ekki spurning hvort við græðum pening eður ei.
Munið að kjósa!!!