Sigurrós

Lífið er dans á rósum!!

miðvikudagur, september 29, 2004

Það er eitthvað með veðrið að gera sem hefur mikil áhrif á skapbrigði hjá mér, þegar sólskin er verð ég svo glöð og sé lífið í björtu ljósi. En í veðri líkt og þessu, rigningu og roki er líkt og einhver hafi lamið úr mér lífsþróttin og ég verð svo þreytt og löt og stundum niðurdregin. Helst hefði ég viljað liggja undir sæng í dag og lokað á umheimin, látið veðrið líða yfir eins og þessi dagur hafi bara liðið hjá án þess að ég tæki þátt í hinu daglega lífi. En ekki var nú völ á því og þess vegna hangir maður bara í Árnagarði með góðvinkonu sinni Láru og lætur hana breyta síðunni sinni!!
Hihi, nýtt look er komið á síðuna eins og flestir taka eftir sem eru reglulegir bypassers hér á þessari blessuðu bullbloggsíðu.
Og nýr bloggari mættur á svæðið, það er hinn stuttorði Oddur sem er nýnemi íslenskunar, hinn eini sanni og er hann einnig með fríða stúlknaflokknum í stjórn Mímis.
Því þótt lífið er erfitt í dag, kemur nýr dagur á morgun og getur hann alltaf verið betri en dagurinn í gær. Framtíðin er björt, ef þú leyfir henni að vera það.

mánudagur, september 27, 2004

Af hverju!!??? Why...!!!????
AAAaaarrrggggggg..., nú er ég pirruð!!!!!!

laugardagur, september 25, 2004

Frænku minni fannst henni vera mismunað þegar móðir hennar leyfði henni ekki að fara á Scooter tónleikana. "Þú leyfir mér aldrei að fara á tónleika", vældi hún þegar móðir hennar sagði nei við bón hennar. Alltaf þegar auglýsing kemur í sjónvarpinu eða útvarpi er frænka mín mætt við tækið dillandi rassinum og sönglandi með.
Frænka mín er fjögurra ára gömul og ansi ákveðin ung stúlka.

mánudagur, september 20, 2004

Sagt er að vatnið hreinsi burt syndir.....
Hvort vatnið hreinsaði burt syndir mínar veit ég ekki , en þreytan úr líkama mínum rann niður með vatninu í niðurfallið í sturtuferð minni í gær.
Þetta var löng sturta, heit og góð. Vatnsdroparnir dundu á líkama minn og amstur dagsins hurfu og líkaminn endurnærðist. Löng og heit sturta er unaðsleg og ég fann hvernig líkaminn vaknaði aftur til lífsins.

föstudagur, september 17, 2004

Bíllinn minn er kominn í lag!!
Já rauði fákurinn minn sést nú á götum borgarinnar og ég keyrandi hann brosandi út að eyrum, svo glöð yfir þessum endurfundum og endurlífgun míns besta vinar; bíllinn minn.
Hann gekkst undir aðgerð fyrr í vikunni, hann fékk nýtt hjarta og líður nú mun betur. Ég tók honum fagnandi þegar aðgerðinni var lokið og við föðmuðumst innilega eftir langan aðskilnað.
Af hverju er 'it' notað fyrir dauða hluti og dýr í ensku? Hví persónugerum við hluti og segjum hann bíllinnn, en í ensku 'it' fyrir 'car'? Erum við svona elskulegri og þykir okkur svona vænt um hlutina og dýrin okkar?
Spáum aðeins í það!

miðvikudagur, september 08, 2004

Reykjavík er borg sem ég bý í. Hér er gott að vera, gott að búa og í amstri dagsins er hægt að finna rólegan stað þar sem stress höfuðborgarinnar truflar þungt hugsandi menn líkt og mig.
Þrátt fyrir rigningu og leiðindaveður hefur hjólið verið minn ökuþjónn og eftir dágott ævintýri í gær, ég sumsé datt, fékk vatnsgusu næstum yfir mig og bíl ók á mig næstum því, að þá lét ég ökuþjónin vera bíl í dag í þessu fremur miður veðri.
Skólinn er hafinn og já, skólinn er sko byrjaður. Þrátt fyrir nokkrar vinnur, djassballet og stjórnarsetu verður skólinn fyrirferðamikill þennan veturinn.
En með björtum augum lítur stúlkan fram á veginn, með bros á vör, leitandi að bíl og vonar að friður verði ríkjandi í heiminum næstu daga.
Peace out, mes amis!

föstudagur, september 03, 2004

Stúlkan er enn á lífi!!
Og nú er staðurinn höfuðborgin, búin að kveðja sveitina í bili og var maður kvaddur almennilega á síðasta degi vinnunar. Það er hefð í frystihúsum, fyrir þá sem ekki vita, að smúla þann sem er að hætta og á ég svo yndislega fjölskyldu að stjúpmóðir mín og frænka hennar réðust til atlögu þegar vinnudeginum var að ljúka og varð ég rennandi blaut. Þær hundeltu mig um allt húsið með háþrýstisprautuna sér í hönd, en sem betur fer urðu þær og nokkrar aðrar fiskmeyjar einnig fyrir barðinu á ísköldu og hörðu íslensku vatni.
Og í höfuðborginni tekur við skólalíf og öllu sem því fylgir, bílinn minn er enn dauður svo ferðamátinn þessa dagana er hjól og bíllinn hennar elskulegu móður minnar sem ég mun ræna af henni annars lagið.
En af nógu er að taka og best að fara að taka úr töskunum og gera sem ég geri best, skipuleggja fataskápinn minn!!