Sigurrós

Lífið er dans á rósum!!

föstudagur, apríl 30, 2004

Í gær hjólaði ég niðrí bæ á hvíta fáknum mínum, í þessu líka yndislega veðri. Það eru engar hlífar yfir dekkjunum hjá mér svo bleytan fór öll á andlitið og bakhlutann og augljóslega hefur einhver drulla farið með því þegar ég kem á bókhlöðuna og skunda beint inná bað til að þurrka mér, blasir við mér ófögur sjón. Það hefði mátt halda að ég hafi verið í þvílíkri moldarvinnu þar sem andlitið á mér var þakið drullu og bleytu. Þegar ég gekk inní bókhlöðuna í mínu sakleysi, stóðu nokkrar svaka píur með make-upið og ilmvatn dauðans og litu á mig eins og ég væri algjör nörd. Þegar ég svo áttaði mig á útliti mínu, leið mér eins og stelpunni í bíómyndunum sem er aðalnördið og allar beiburnar flissa af. Nörd er viðurnefni sem ég er oft kölluð undanfarið af ákveðnum aðila, sá aðili segir að ég geri ekki annað en að þrífa og læra. Satt er nú það þar sem ég geri ekki annað en að læra og þrífa inn á milli. Ætli ég sé þá ekki algjört nörd sem á ekkert líf og sem er litið niður á af pæjunum (sem eru örugglega í viðskiptafræði!!) á bókhlöðunni.
En nóg um mitt fábreyttna líf, lærdómurinn kallar og nú er það endurreisnin og bókmenntir 1600-1800 á Íslandi. Íslenskar bókmenntir eru skemmtilesning.

mánudagur, apríl 26, 2004

Það var skundað útí ísbúð eftir prófið í dag, okkur Láru fannst við eiga það skilið. Við röltuðum um vesturbæinn, sólin skein og vindurinn blés í kinnarnar á okkur. Sumarið er að koma og allt er farið að blómstra, grasið farið að grænka.
Prófið var í bókmenntasögu, bókmenntir frá upphafi til 20. aldar. Hvernig gekk kemur í ljós seinna.
Það sem eitt sinn var, kemur aldrei aftur. Það sem mun koma er óvissa, það sem við höfum í dag er lífið, ástin og tilveran. Njótum þess.

þriðjudagur, apríl 20, 2004

Loksins fann ég mér sæti hér á bókhlöðunni....., mætti halda að það væru að koma próf!!
En já maður er víst komin heim; heim á klakann og hversdagslífið tekur við.
Það var gaman í London, allt öfugsnúið og alltof mikið af fólki. En við vinkonur náðum að skemmta okkur konunglega þó svo að við hittum enga af konungsfjölskyldunni. Við okkur tók bara risastór hlið, með gyllingum á og engin Beta né Kalli að bjóða okkur í te. En við fundum okkur bara annað að gera, versluðum, versluðum og versluðum og já fengum okkur tattoo!! Jú, jú rétt er, dansirósin er komin með tattoo og hvað haldiði að ég hafi fengið mér??
En nú tekur við lærdómur og endalaus lærdómur!! Næstu þrjár vikurnar mun ég hanga á svæði 101, annað hvort á bókhlöðunni eða Eggertsgötunni og er búin að birgja mig upp af nammi til að eiga í próflestrinum.
Gangi öllum konum og körlum vel í prófunum!!

miðvikudagur, apríl 14, 2004

Jeij, ég er að fara til London!!!!
Eftir nokkra klukktíma verð ég komin í höfuðborg Bretlands, með vinkonu minni henni Báru og við ætlum að gera allt sem okkur dettur í hug. Við erum búnar að fá góðan lista yfir skemmtileg söfn, góða veitingastaði og margt fleira frá vinkonu okkar henni Evu sem því miður komst ekki með okkur. En best finnst mér heil gata bara með skóbúðum!!!! O my, á maður eftir að tapa sér þar eða hvað! En ég veit að nokkrar vinkonur mínar væru alveg til rölta þá götu, hihi.
En ég verð að fara að pakka niður, það er leiðinlegt að pakka niður............
Traveling is great!

mánudagur, apríl 12, 2004

Lífið er dásamlegt!
Á leiðinni heim heyrði ég þetta lag með Bubba í útvarpinu. Og sönn eru þau orð, lífið er dásamlegt!!
Allavega er mitt líf dásamlegt, hvað er yndislegra en að vera ung og frjáls! Að vera laus undan fortíðardraugum og vandamálum og njóta lífsins, gera það sem maður vill. Auðvitað er maður aldrei fullkomnlega frjáls, en að búa á þessu fallega landi og vera að gera það sem best hentar manni, það er mjög góð tilfinning. Að komast úr borgarmenningunni, njóta náttúrunnar eins og hún gerist best er fullkomnun. Að labba á spegilsléttum sandinum með vindinn í hárinu og horfandi út í eilífðina, er einstakt. Að horfa á sjóinn slá klettana, náttúruna í sínu fínasta pússi. Þá virðist maður sjálfur vera eitthvað svo lítill, bara ein lítil sál flögrandi um í þessu stóra heimi. Og öll vandamál hverfa, bara þú og sjórinn og allt annað skiptir engu máli.
En það sem gerir lífið ríkt er fólkið í kringum mann, þá sérstaklega fjölskyldan. Ég á stóra og skrýtna fjölskyldu, en hún er samt sem áður fjölskyldan mín og gerir mitt líf ríkara en það væri án hennar. Ég hugsaði í dag hvar ég væri ef ég ætti hana ekki að. Ég á ekki venjulega fjölskyldu, en það gerir hana bara enn sérstakari.
Góða nótt íslenskt fólk og sofið rótt.

föstudagur, apríl 09, 2004

Þá er maður kominn í sveitina, í heimsókn til pabba. Ég fór í göngutúr áðan með litlu systur minni og gekk meðfram sjónum og var búin að gleyma hversu yndislegt það er að komast í burtu frá borginni, engin hávaði bara sjávarniðurinn. Engin umferð, bara smábæjarfílingurinn.
Og loksins er páskafríið komið og dagurinn er búin að vera rólegur. En undanfarið hefur verið nóg að gera, skóli, vinna og slíkt. Á þriðjudaginn var haldin aðalfundur Mímis og var ég kosinn gjaldkeri Mímis sem er nemendafélag stúdenta í íslenskum fræðum við Háskólann. Þannig að nóg verður að gera á næsta skólaári.
En nú tekur afslöppun við og ánægjustundir með fjölskyldunni um páskana. En einnig verður lærdómurinn fyrir hendi þar sem stutt er í prófin.
Gleðilega páska, tout le monde.

þriðjudagur, apríl 06, 2004

Ég er með kvef og er umkrind tissjúum. Ég nenni ekki að vera veik, að vera veik er fremur valkostur(sem ég neyðist stundum til að velja) hjá mér en eitthvað sem bara kemur fyrir mann. Og svo er ég líka að læra, eða reyna það og hangi inni í þessu dásemdarveðri þegar börnin leika lausum hala um göturnar þar sem skólar eru komnir í páskafrí.
Og viðfangsefnið í dag og næstu daga er sköpunarsagan í Biblíunni og grísk goðafræði. Og ég er tóm í hausnum eftir að hafa hleypt út öllum mínum hugmyndum um þetta efni. Eflaust hefur eitthvað af hugmyndum farið í tissjúið eða er fast þar sem mikil þrýstingur umlykur hausinn á mér akkúrat núna.
En nýi félaginn minn bíður eftir mér heima, glansar líkt og nýtt gull, bíðandi að ég setjist á fákinn og njóti veðursins. Við áttum góða stund saman í gær, fórum í skólann saman og þar var hann stilltur og prúður líkt og honum einum sæmir. Á heimleiðinni var hann einstakur.
Auðvitað er ég að tala um nýja hjólið mitt sem ég fékk frá foreldrum mínum(öllum fjórum) og stóru systir. Takk fyrir kaggann fjölskyldan mín!!

mánudagur, apríl 05, 2004

Dans er list, ekki íþrótt!!
Misskilningur í langan tíma hefur farið á milli manna um það að dans sé íþrótt þar sem líkaminn er mikið notaður í dansi. Mín skoðun er aftur á móti önnur. Vissulega notar maður líkaman þegar maður dansar og þarf að vera í góðri æfingu. En það sem gerir dansara að góðum dansara er tjáning hans á hreyfingunum. Því er dans ákveðið listform, þar sem dansari tjáir ákveðnar tilfinningar með hreyfingum sínum.
Það sem aðgreinir t.d. boltaíþróttir og dans er það að keppt er í boltanum. En þá segja margir að keppt er líka í dansi. Vissulega er keppt í dansi, en aðeins einum hluta af honum, þ.e. samkvæmisdönsum. En aðrar greinar af dansi, s.s. ballett er ákveðið tjáningarform á tilfinningum, viðburðum o.fl. Boltaíþróttir snúast hins vegar fyrst og fremst um keppni. Einnig verða boltamenn að vera hæfileikaríkir, en á annan hátt en dansarar. Og við teljum tónlist vera listform og söngvakeppnir eru þekktar þar sem keppt er. Og líkamsbygging getur skipt máli fyrir tónlistarmenn svona ef við tökum allt inní reikninginn. En tónlist er list.
Og líkt og öll list í dag eru til misgóðir dansarar. Fólk fer út á lífið um helgar og dansar og þar er nú ekki mikið um mikla list, en þeir sem vinna við að dansa eru miklir listamenn, bara misgóðir. Þessu mætti líkja við tónlist og myndlist. Til eru misgóðir tónlistarmenn og málarar.
Sumir skilja ekki hvers vegna skák er talinn vera íþrótt, en það dæmi nota ég til að rökstyðja mitt mál. Skák er keppnisíþrótt og þar er ekki verið að tjá miklar tilfinningar og ekki skiptir máli í hvernig formi kroppurinn er.
La vie est une arte!!

laugardagur, apríl 03, 2004

Þá er maður víst orðin 23ja ára.
Dagurinn er búin að vera fínn, og framhaldið lofar góðu. Fjölskyldan kom í heimsókn í hádeginu og við snæddum saman hádegisverð, svo í kvöld munu vinirnir kíkja við og eiga góða kvöldstund með afmælisbarninu.
En best að fara að koma sér í afmælisgallann áður en liðið kemur.