Sigurrós

Lífið er dans á rósum!!

föstudagur, maí 28, 2004

Þegar ég vaknaði í morgun tók á móti mér ekkert nema fuglasöngur og ferskt loft, ég er komin í sveitina. Og hér verð ég í sumar að vinna mér inn smá aur fyrir öllum skuldum síðastliðinn veturs. Fiskurinn bíður spenntur að ég handlangi hann, en fyrst verður sett upp ný lína í frystihúsið svo hægt sé að mæla frammistöðu hvers og eins í stað alls hópsins líkt og í gamla daga.
En nóg er að gera í sveitinni, á hvítasunnudag mun systir mín ganga að altarinu og játa trú sína á Krist og Guð. Litla systir mín, sem var fyrir skömmu bara tveggja ára með ljósa lokka og alltaf brosandi er orðin unglingur og er að fara að fermast. Tíminn líður sko hratt á gervihnattaröld og skrýtið hvað hlutirnir breytast þó svo að það virðist hafa verið í gær sem ég var að ærslast með systur mínar yngri þegar þær voru litlar.
Síðastliðnir dagar hafa verið yfirfullir af verkefnum, bæði að klára allt áður en haldið var útá land og að redda hinu og þessu fyrir veislu ársins hjá fjölskyldunni.
En einkunnir eru allar komnar og stóð rósin sig bara vel þessa önn, fyrir utan d******bókmenntasöguna. Ég verð að segja að ég eigi hrós skilið, 23 einingar í háskóla og 60% vinna, geri aðrir betur!! Tjjaaa, kannski Bjarki, en reyni aðrir að gera betur en hann!! I doubt it!!

föstudagur, maí 21, 2004

Ég er búin að komast að því að ég er fremur kaldlynd manneskja, allavega get ég orðið það við fólkið sem stendur mér næst. Ég er ekki hlý manneskja svona innst inni. Ég hef ekki alltaf komið vel fram við fólk sem mér þykir vænt um og stundum á ég erfitt með að biðjast afsökunar og vera hlý og góð.
Einu sinni var ég skömmuð í vinnunni fyrir að vera með reiðisvip, ég ætti að vera glaðlynd og með venjulegan svip. Ég áttaði mig bara ekki á þessum reiðisvip mínum og lagfærði svip minn strax. Ég áttaði mig bara ekki á þessu. Oft við fyrstu viðmót hræðist fólk mig og veit ekki hvernig það á að vera í kringum mig. Stundum öskra ég og æpi og læt særandi orð fjúka til minna nánustu, það er ekki gott.
En þrátt fyrir þetta allt saman á ég ótrúlega gott fólk að; skrýtið. Eitthvað hlýtur það að vera sem fólk þolir við mig sem lætur þessa ókosti mína yfirbuga hina góðu kosti sem gerir það að verkum að það þolir mig.
Furðuleg er mannskepnan.

fimmtudagur, maí 20, 2004

Fjölskyldan fór í hátíðarrúnt í dag. Keyrt var um Suðurlandið og var fyrst stoppað á Selfossi þar sem keyptir voru drykkir í "kaupfélaginu" gamla sem tilheyrir keðju kennd við Nóatún í nútímanum. Synd og skömm með blessaða kaupfélagið. Síðan var keyrt austur fyrir heiðar og keyrðum um Árnesið og stoppuðum hjá Hjálparfoss þar sem nesti var tekið upp og gæddum við okkur á heimabakstri okkar systra. Fyrst þegar ég koma að Hjálparfoss var ég nú rétt svo tveggja mánaða gömul. Við fengum að kíkja inní Búrfellsvirkjun sem er ekki langt frá og skoðuðum við okkur um þar inni. Ekki lék veðrið við okkur, rigning og rok. En ég hafði góðan sögumann með mér, ég sat nefninlega hliðina á afa mínum sem er mikill sögumaður og hefur frá mörgu að segja. Síðan var brunað í bæinn eftir vætusaman en skemmtilegan dag.

sunnudagur, maí 16, 2004

Loksins!! Prófin búin, tvær einkunnir komnar sem eru ekki það góðar til að verða birtar hér, en segja má að það þurfi ekki að endurtaka þessi próf.
Og þó svo að prófin voru búin, var nóg að gera, djamma!!! Við vinkonurnar skelltum okkur út á lífið á föstudagskvöldið, kíktum á Sólon sem var eitt svitabað og ekki beint staður fyrir stúdenta í heimspekideild!! En gaman þó.
Svo varð þynnkan að bíða á laugardeginum því haldið var í vorferð Mímis, nemendafélag íslenskustúdenta, en farið var á Njáluslóðir (sem maður hefur nú oft og mörgum sinnum komið að) og vorum við frædd um landsvæðið og tengsl þess við sögu kennd við Njál. Um kvöldið var svo haldið í "grillpartý" og eurovision heima hjá mér. Stuðið hélst fram eftir kvöldi; inní stofu glimmruðu gömul eurovision lögin og voru Eyrún og Lára, eurovision spekúlantar, þar fremstar í flokki, en inní herberginu mínu sátu Gulli og aðdáendur þar sem Gulli stillti strengi gítarsins og aðdáendur sungu sælir með. Kíkt var svo niðrí bæ þar sem dansinn dunaði fram eftir nóttu.
Í dag var svo afslöppun eftir þetta allt saman....

miðvikudagur, maí 12, 2004

Einn dagur og þá er þetta búið!!!

þriðjudagur, maí 11, 2004

Vá, bara nýtt look á bloggernum!!
Bara tveir dagar eftir af próflestri og á morgun verður maraþondagur þar sem ég mun fara í próf kl.9 og læra allan daginn fyrir bókmenntir til 1400!!
En hugurinn er við hljóðbreytingar, áhrifsbreytingar og tökuorð. Námskeiðið er málbreytingar sem er alveg superdúper skemmtilegt, en mikið efni að fara yfir. Og hver segir að maður geti ekki skemmt sér í próflestri? Í gær var ég að lesa yfir glósurnar og rakst á skemmtilegar staðreyndir, tilgátur manna um orsakir málbreytinga:

Germanska hljóðfærslan (p>f) stafar af því að Germanir hafi verið móðir af því að hlaupa upp og niður fjöll í Ölpunum.

Kuldans vegna í N.-Evrópu var fólk ófúst til að opna munninn, því fóru menn að segja o í stað a.

Þar sem Germanir hafi verið heyrnasljóir; eyrnamergur hafi safnast meira fyrir í eyrum þeirra en annarra þjóða, verður Germanska hljóðfærslan. (t>þ)

Já, hver sagði svo að háskólanám borgaði sig ekki?? Maður lærir allavega alltaf eitthvað nýtt get ég sagt ykkur.

Deux jours, tout le monde, deux jours!!!

sunnudagur, maí 09, 2004

Í próftíð finnur maður sér alltaf eitthvað annað að gera en að læra. Ég var að skoða afmælisdagbókina mína, svona til að sjá hverjir eigi afmæli framundan og það er bara slatti í maí sem ég þekki sem á afmæli. En aftast í bókinni, sem ég fékk í fermingargjöf frá frænku minni, er kínversk stjörnuspeki og tilheyri ég ári hanans, lýsingin á þeim hljóðar svo:
"Hanar eru iðnir, afkastamiklir og skylduræknir. Þeir leggja oft á sig langvarandi strit til að ná settu marki. Þeim hættir þó til þess að taka að sér meiri vinnu en þeir ráða við og verða fyrir sárum vonbrigðum ef þeim tekst illa upp. Hanar vilja vinna sjálfstætt á sinn hátt og bregðast hart við utanaðkomandi afskiptum. Þeir geta verið oflætisfullir og ráðríkir við getuminna samstarfsfólk og félaga. Hanar eru þekktir að hreinskilni en verði hún of harkaleg gæti orðið um vinslit að ræða. Hanar geta verið sérvitrir, dá ævintýramennsku og eru djarfir landkönnuðir."
Þá hafiði það, lýsir mér bara furðuvel held ég.
En Íslendingasögurnar bíða.....

mánudagur, maí 03, 2004

Í dag fór ég að heimsækja lítinn snáða, Smára Sigurðsson, sem kom í heiminn þann 1. maí síðastliðinn. Hann er yndislegur, pínkulítill og sefur allan daginn. Hún Signý vinkona mín var sem sagt að eignast sitt fyrsta barn og heimsótti ég S-in þrjú í dag á sængurdeildinni og veit ég ekki hver brosti mest, en þau eru mjög hamingjusöm, þau Signý og Siggi, með litla drenginn enda ekki hægt annað því hann er algjört yndi!!
Og hann Bjössi frændi minn er 23ja ára í dag.
Til hamingju!!