Sigurrós

Lífið er dans á rósum!!

mánudagur, júní 21, 2004

Sólin hefur verið við völd þessa dagana hér í firðinum og þó svo maður sé fastur inni alla daga er komin smá brúnka á kroppinn!
Og þó svo maður sé komin í sumarfrí og hafi mun meiri lausan tíma nú en í vetur er maður ótrúlega latur við að blogga, og ekki bara ég. Ég hef tekið eftir því að fólk í kringum mig er líka lat við bloggið, ætli það sé ekki veðrið sem togar mann út og þá situr tölvan á hakanum.
En lítið er svo sem að frétta, ekki er annað gert en unnið, borðað og sofið. Fremur tilbreytingarlítið líf sem maður lifir þetta sumarið, enda ekki búin að eyða krónu!
En ég gerðist nú reyndar mjög dugleg um helgina og byrjaði að læra fyrir blessuðu ba-ritgerðina mína og í góða veðrinu á sunnudaginn lá ég í sólbaði lesandi um tíðir, þ.e. nútíð, þátíð og allt það. Fremur áhugavert en gengur hægt þar sem efnið er á ensku og fullt af málfræðilegum hugtökum sem eru mér framandi.
Tíminn var notaður vel um helgina, enda ein heima og rólegheitin voru við völd í húsinu. En það getur orðið einmanalegt að vera alein í svona stóru húsi og því var ég fegin þegar liðið koma valsandi inn um dyrnar.

mánudagur, júní 07, 2004

Hún María Helen systir mín á afmæli í dag og vil ég óska henni til hamingju með daginn.
Það var skellt sér á ball um helgina, í tilefni af sjómannadeginum. Mikil hátíðarhöld voru hér í bæ á laugardeginum, það tíðkast víst nú til dags að halda mestu viðburðina á laugardeginum en ekki á sjómannadeginum sjálfum líkt og þegar ég var barn. En ballið var fínt, blindfullir sjóarar og vitlausir unglingar skemmtu sér vel og dansinn dunaði við tóna hljómsveitarinnar Á Móti Sól langt fram á nótt. Og þrátt fyrir að vera í litlu sjávarplássi gat maður fengið sér Hlöllabát eftir djammið, ekkert jafnast á við Hlölla. Og svo á sjómannadeginum sjálfum var bara legið í leti fram eftir degi, sumsé góð helgi í firðinum.

fimmtudagur, júní 03, 2004

Þegar ég mætti í vinnuna í morgun gat ég ekki beðið eftir pásunni svo ég gæti fengið mér kaffi, ég er orðin kaffidrykkjumanneskja, eitthvað sem ég hélt ég yrði aldrei. Nú skil ég hvernig það er að geta ekki byrjað daginn fyrr en kaffibollinn er kominn í hendina. Uuuuummmm....., hvað kaffi er gott.
Og sveitasælan er góð, veðrið er búið að leika við fjörðinn og bæjarbúa hans undanfarna daga. Sjórinn er spegilsléttur og sólin er farin að halla sér en sést þó enn, himininn er næstum heiðskýr. Hér er ekkert nema rólegheitin og afslöppun í faðmi fjölskyldunnar.
En á daginn vinnur maður eins og hestur, því á nógu er að taka í fiskinum. Mér finnst það ótrúlegt að liðin skulu vera sjö ár frá því ég síðast vann í fiski og man bara slatta enn.