Sigurrós

Lífið er dans á rósum!!

fimmtudagur, apríl 28, 2005

Nú er mér allri lokið, ég er endanlega búin að fá nóg af raunveruleikaþáttum..ef svo á að kalla.
Um daginn var ég að fletta í gegnum stöðvarnar og endaði á popptíví, þeirri líka karlrembustöð sem hún er orðin og fremur einhæf. Á stöðinni var verið að sýna úr þætti, raunveruleikaþætti, sem er í sýningu á popptíví. Jájá, allt í lagi með það, en þegar ég sá um hvað þátturinn var, þá var mér bara allri lokið. Þátturinn var um Amish-unglinga, sem voru að upplifa rumspringa sitt og bjuggu með nokkrum "venjulegum" unglingum. Þvílík endemis vitleysa!! Er ekkert heilagt fyrir Bandaríkjamönnum, og geta menn ekki hætt að gera svona fáránlega sjónvarpsþætti sem fjalla ekki um neitt!! Það atriði sem ég sá voru krakkarnir sitjandi við borð, étandi jarðaber og talandi um ekki neitt.
Anskotans sjónvarp!

sunnudagur, apríl 24, 2005

Í leti minni í gær fann ég mér allt annað að gera en það sem ég hefði átt að vera að gera, læra. Ég fór að baka, þvoði þvott, tók til, fór með tómar dósir, verslaði, glápti endalaust mikið á sjónvarpið og þar á meðal omega, þar sem ekkert annað en íþróttir voru á hinum stöðvunum og ekki mikill áhugi á þeim hér á bæ.
Á Omega var verið að ræða Biblíuna og þýðingar á henni og þar var viðmælandi hinn ágæti Gunnar í Krossinum sem Spaugstofumenn gera óspart grín af þessa dagana. Ég eiginlega festist inní umræðunni sem átti sér stað í þættinum, þar nefndu þeir hina nýju þýðingu á Biblíunni sem væri verið að vinna í og þá galla sem þeir sáu á henni. Þar nefndu þeir að ekki ætti að breyta orðalagi Biblíunnar, að Biblían ætti að vera eins og hún væri. Röksemdir þeirra sem vildu fá nýja og jafnréttislega Biblíu, væru þær að það orðalag sem væri í Biblíunni biði ekki upp á mikið jafnrétti meðal allra samfélagshópa og væru hreint og beint niðrandi fyrir suma hópa. Þar fór mest fyrir samkynhneigðum sem ýta sífellt fastar á lúterska kirkju um samþykki þess að mega gifta sig og tilheyra kirkjunni á þann hátt sem gagnkynhneigðir menn gera.
Ég er ekki á móti samkynhneigðum, en ég er aftur á móti gegn því að breyta riti eins og Biblíunni á nokkurn hátt. Biblían hefur lifað með manninum í rúm tvö þúsund ár, í gegnum allt það sem mennirnir hafa valdið sjálfum sér og heiminum. Biblían býður ekki upp á jafnrétti fyrir einn eða nein, ef litið er á merkingu þess orðs eins og við þekkjum það í dag. Ætti kannski að koma aukakafli í Biblíuna sem segir til um jafnrétti meðal kynja? Því sú hugmyndafræði sem ríkir í Biblíunni á svo sannarlega ekki upp á pallborði við jafnrétti kynjana í dag.
Ég er ansi hrædd um, og þar erum við Gunnar sammála, að ef menn fara að breyta og laga Biblíuna að þörfum manna hverju sinni erum við komin langt frá því sem Biblían boðar og því sem hún hefur staðið fyrir í tvö þúsund ár.
Biblían er ekki fullkomin, hún er nefnilega skrifuð af mönnum. En Biblían er höfuðrit og hefur verið höfuðrit okkar manna frá því kristnir urðum. Að breyta slíku verki værum við ekki bara að breyta ritinu heldur okkur sjálfum.
Correct me if I'm wrong

föstudagur, apríl 22, 2005

Honum var hent út, ástæður margar og flóknar en óútskýranlegar. Næstu daga ráfaði hann um eins og kaldur kjölturakki. Fólk gekk á hann, strunsaði framhjá honum, hann var ósýnilegur fyrir heimnum. Það rigndi, stytti upp og nýr dagur reis með sól. Hann var skítugur, kaldur og svangur og þráði það heitt að fólk myndi taka eftir honum. Hann varð þreyttur, átti í enginn húsaskjól að leita og settist upp að húsvegg. Hann sofnaði værum svefni og vaknaði aldrei aftur.
Nokkrum dögum síðar birtist frétt í dagblaðinu, um líkfund. Fundist hafði lík sem var farið að lykta svo illa að loks komu bæjarstarfsmenn og fjarlægðu það. Enginn hafði tekið eftir því, fólk gekk framhjá því dag eftir dag þar til einhver hringdi í bæjaryfirvöld og kvartaði undan lykt við þá götu sem hann hafði sofnað við.
Enginn kom í jarðarförina, enginn hafði saknað hans. Það birtist enginn minningargrein, hann hafði ekki skilið neina arfleið eftir sig á jarðríki.
Hugsum málið...., gleðilegt sumar....

mánudagur, apríl 18, 2005

"More recently, the writer Georges Simenon explained that he makes his books so simple because most Frenchmen know fewer than 600 words.(Simenon also claims to have slept with 10,000 women in his life, leading Aithchinson to suggest that he suffers from a general problem with numerical cognition.)"

Tekið uppúr bók eftir Paul Bloom og fjallar um hvernig börn læra merkingu orða. Mjög fróðleg bók....

fimmtudagur, apríl 14, 2005

Þegar ég sat í kaffistofu Árnagarðs í hádeginu, ásamt fríðu föruneyti, kom að okkur úngur drengur og rétti okkur nokkur eintök af blaði ungliðahreyfingu vinstri græna. Jújú, ég tók við því þó svo að ég sé ekki grænna megin í pólitík og tók við að fletta í gegnum þetta líka ágæta tímarit þeirra sem var ansi grænt og gult (hentugt svona í byrjun vors). Þar sem ég fletti í gegnum snepilinn rak ég augu mín í setningu sem komandi íslenskufræðingur var alls ekki sáttur við (þ.e. ég)"út í hött að þurfa að læra íslensku"!! Þetta var sumsé viðtal við formann ungra vinstri græna og var viðtalið um stöðu útlendinga hér á landi, atvinnumöguleika og landvistarleyfi fyrir þá einstaklinga. Þar sem ég vildi nú vita un hvað upphafs málsgreinin átti að þýða las ég greinina í gegn.
Greinin var athyglisverð og á nokkrum stöðum var ég sammála greinarhöfundi, en mér fannst hún gera örlítið lítið úr stöðu útlendinga hér á landi. Vissulega er margt ábótasamt þegar kemur að málefnum útlendinga hér á landi og margt sem betur mætti fara, en víðs vegar um landið er menning útlendinga orðin hluti af menningu heimamanna. En aðlögun tekur alltaf tíma, ekki má gleyma því. Íslendingar mega alveg vera opnari gagnvart útlendingum, því þjóð vor gleymir oft og mörgu sinnum að þau störf sem henta okkur ekki lengur, t.d. fiskvinnslustörf, eru unnin af þessum útlendingum og einhver verður að verka fiskinn sem við svo stórgræðum á. En ekki er þetta alhæfing. Hér á Íslandi er orðin fjölmenning og af hinu góða segi ég. Íslendingum finnst gaman að fara til útlanda og kynnast nýjum menningarheimum, því ekki að fagna fjölmenningu heima við? Hingað til lands fáum við alls konar einstaklinga alls staðar úr heimnum og eigum við að fagna þeim og bjóða þeim það allra besta sem íslenskt samfélag hefur upp á að bjóða.
EN, á þeim stað sem ég er ósammála greinarhöfundi kemur að alhæfingu hennar að henni finnst það út í hött að útlendingar verði að taka upp íslenska siði og séu skyldaðir til þess að læra íslensku!! Ég spyr af hverju?
Ástæður þess að útlendingar komi hingað eru mismargar, en allir vilja eiga sómsamlegt líf hér á landi. Mikilvægt er fyrir útlendinga að halda í sinn móðurarf bæði fyrir sjálfan sig og börn sín, en það sem við öll verðum að gera okkur grein fyrir er það að þegar flutt er til annars lands vill maður verða hluti af samfélaginu og taka þátt í menningu þess. Hvernig er það gert? Með tungumáli!!
Ef ég myndi flytjast til Kína gæti ég ekki bara setið útí horni og bablað á íslensku og þráast við það að vilja læra kínversku. Ég myndi ekkert ná sambandi við fólk, ekki kynnast neinum og á endanum myndi ég hópa mig saman með sömu þrákelknu Íslendingunum og við myndum einangrast.
Við eigum ekki að neyða einn eða neinn til neins, það er ekki lausn. Fremur verðum við að aðstoða fólk til þess að koma lífi sínu á réttan kjöl hér á landi, ef fólkið kemur frá erfiðum aðstæðum. Innflytjendur eru mismenntaðir og þetta er erfitt viðfangs þegar kemur að því að kenna fólkinu málið, en eigi að síður er það mikilvægt fyrir það að læra málið og kynnast menningunni til þess að geta tekið þátt í samfélaginu.
Er þetta hræsni í tilvonandi íslenskufræðingnum? Gæti verið, en mín skoðun er sú að hér á landi býr þjóð sem meginþorri eru innfæddir Íslendingar og við eigum okkar eigið mál sem við megum vera ansi stoltir af. Því verðum við að líta svo á að þegar hingað kemur fólk sem vill búa meðal oss og lifa verður það að líta vissum lögmálum sem við höfum hér á landi og besta leiðin til þess er að læra tungumálið.
Við getum svo lært af hvort öðru, þegar tveir menningarheimar mætast í hópi fjölbreyttra manna gætum við fengið nýja sýn á menningarheim þess sem kemur frá t.d. Thailandi, Póllandi, Úganda, Bandaríkjunum og guð má vita hvaðan.
Íslendingar mega ekki ekki beygja sig eftir því sem alþjóð vill, þó svo að við séum lítið þjóð erum við samt þjóð með okkar eigið tungumál.
svo kalla þeir blað sitt málgagn!?!

mánudagur, apríl 11, 2005

Skyr og kaffi fer ekki vel saman.
Er að læra á bókhlöðunni. Er að skrifa BA-ritgerðina, ritgerð í máltöku barna, verkefni í Skrift og handrit, ritgerð í Þróun málvísinda og er bara hangandi á netinu!!
Fjölhæf er stúlkan...

fimmtudagur, apríl 07, 2005

Hví var enginn búin að benda mér á málfræði Kristjáns Árna?! Afspyrnu góð bók, líkt og talað úr mínu hjarta. Ég og Kristján erum ansi sammála, allavega um þann hlutinn sem snýr að tíð og tíðbeygingu.
En um allt annað...
Nýyrðasmíði er ekki einungis viðfangsefni gamallra og grára málfræðinga sem eru farnir að samsvara sér við húsgögn Árnastofnunar, heldur er hún eins frjó og grasagarðurinn hjá stúdentum sem sötra kaffi og fá sér gotterí í kaffistofu Árnagarðs. Bjarki hin vitri, Haukur hin spaki, Guðlaugur hin seini og Sigríður hin skyggna komu með nýyrði á hugtökum til að lýsa fornbókmenntum vor, nú eða bókmenntum almennt við kaffidrykkju í dag. Ljóð sem er lélega kveðið verður kallað gubb í framtíðinni ef þessi nýyrðasmíði nær góðri undirtekt meðal fræðimanna og ælusletta er hugtak um ósamsettn-íng í stuðulun í eddukvæðum. Allt er þetta sprotið út af líkingarmáli sem Bjarki hin vitri notaði fyrir handrit vor og vinnslu við uppskriftir af þeim, sem var líkt við sóffa (borið svona fram af hinum vitra) og ælu. Það var Sigurrós kennd við dans (ég) sem var vitni að þessum umræðum, kætist vel og mikið af þessum umræðum og lét í ljós ánægju sína með sprengihlátri.
Ritað með eigin hendi, á eigin lyklaborði

sunnudagur, apríl 03, 2005

tíminn líður hratt, maður bara orðin gamall....24 ára

laugardagur, apríl 02, 2005

Eru þið að grínast með þetta veður!!??