Sigurrós

Lífið er dans á rósum!!

mánudagur, maí 30, 2005

Skil ekki hvernig vinnandi fólk, með börn, heimili, bíl og tómstundargaman hafi tíma til að lesa moggann. Ég er búin að vera í fríi núna í tvo daga, algjöru fríi og mikill hluti dagsins fer í það að lesa moggann. Sunnudagsmogginn er þó alltaf langbestur. Ég las t.d. viðtal við Aðalheiði Rósu Georgsdóttur og sagði hún frá lífshlaupi sínu, þ.á.m. morð dóttur sinnar. Mjög gott viðtal. Rakst svo á stutta grein tveggja ungra kvenna um atburð sem þær urðu vitni að niðrí bæ núna nýlega. Atburðurinn varðaði nýbúa hér á landi.
Um daginn bauð ég tveim vinkonum mínum í mat og umræðurnar voru margvíslegar, ræddum m.a. um nýbúa og þá sérstaklega litað fólk. Önnur vinkona mín taldi sig vera rasista, hin ekki. Það er ekkert feimnismál í dag að vera rasisti, fólk segist ekki vilja litað fólk meðal sín og telur menningu okkar Íslendinga og kynstofn vera í hættu.
Mér finnst orðið rasismi vera oft á tíðum vitlaust notað. Hugtakið rasismi hefur að gera með litarhátt manna, ef þú ert rasisti þá ertu á móti litarhætti tiltekinna manna. En hugtakið hefur breyst frá því það varð til, nú snýst það um mun meira en litarhátt og yfirleitt snýst málið ekkert um litarhátt manna, eða hvað?
Ég á vinkonu sem er ættleidd, hún er lituð og hefur alltaf búið á Íslandi. Hún er með íslenskan ríkisborgararétt. Ég spurði vinkonu mína rasistann hvort hún hefði e-ð á móti vinkonu minni. Nei sagði hún, enda taldi hún það allt annað mál. Hvernig er það allt annað mál, hún er lituð eins og kona sem kemur frá Asíu og býr hér!! En þar er samt munur á, konan frá Asíu kemur frá öðrum menningarheimi, er ekki uppalin hér. Aftur á móti er vinkona mín alin upp hér, eins mikil "Íslendingur" og hægt er að vera. Ágreiningurinn er menningarlega séð, ekki litarhafts séð.
Ég á frænda, réttar sagt er hann ættleiddur í fjölskyldu stjúpmóður minnar, sem kemur frá S.-Kóreu. Ágætispiltur, fannst í rusli í S.-Kóreu. Hann var ættleiddur hingað til lands ungur að aldri og þekkir einungis íslenskan veruleika, hann þekkir lítið sem ekkert til síns föðurlands og kynforeldra. Ég tel að ekki bara foreldrar hans hér heldur líka Íslendingar hafi bjargað honum eflaust frá dauða. Hér á landi veittist honum öruggt hússkjól, matur, menntun og margt fleira sem tilheyrir því að alast upp á Íslandi.
Hingað komu til lands á áttunda áratugnum flóttamenn frá Víetnam, aldnir upp í Víetnam en vegna slæms ástands þar þurftu þeir að flýja land sitt og var boðið vist hér á landi. Þar með aðstoðuðum við einnig fólk sem var uppalið í allt öðrum veruleika til að forðast þær hörmungar sem dundu yfir föðurland þeirra. Á þetta fólk ekki skilið að vera hér? Gætu þeir eyðilagt og lagt út af íslenskt samfélag með öllu tilheyrandi?
Við erum orðið fjölþjóðasamfélag, förum að átta okkur á því. Gagnrýnum ekki lit, menningu eða siði hvers og eins. Því hér á landi búa líka nýbúar sem eru ekki litaðir, t.d. Pólverjar, Júgóslavar, Englendingar og jafnvel Bandaríkjamenn.
Íslenskt samfélag er ekki í hættu, það er okkar hlutverk að vernda það og gæta að því, líkt og við höfum gert síðan á 9.öld. Nú er það orðið fjölbreytara, skemmtilegra og við eigum að fagna því og taka vel á móti öllum þeim sem vilja koma hingað til lands og búa.

laugardagur, maí 28, 2005

Þó svo að skólinn sé búinn er ekkert minna að gera hjá manni, bara mun skemmtilegra og líflegra þeir hlutir sem ég er að gera núna. Ég er loksins sloppin úr klóm hlöðunnar og það heil á húfi, ósködduð á líkama og sál. Þó mun ég heimsækja ljónið af og til í sumar, verð sniglandi um í málfræðideildinni leitandi að eftirsóknaverðandi lesefni fyrir tuðruna mína (þ.e. lokaritgerðina). Já, köllum hana bara tuðru framvegis, gott orð.
Ég fór í bókabúð í dag, það á ekki að hleypa mér inní bókabúðir lengur. Ég er þekkt fyrir að eiga ansi mörg sjöl og slæður, einnig þekkt fyrir að eiga fleiri en fimm töskur(á orðið um 20 töskur og finnst samt vanta í safnið!!). Nýja ástfóstur mitt er bækur, ég bara get ekki hætt að kaupa bækur.
Allavega, í dag fór ég í bókabúð, þurfti að fara þangað inn til að kaupa útskriftargjöf fyrir frænku-nöfnu mína, stúdínuna. Þegar þangað var komið inn litaðist ég um eftir góðri gjöf handa stúdínunni, en slíkt var hægara sagt en gert því ég var farin að líta girndaraugum á bækur fyrir sjálfa mig og farin að velta því fyrir mér hvernig ég gæti tínt saman þeim fáu aurum sem voru í vasa mínum svo ég gæti glatt mitt eigið hjarta og keypt mér bók. Þarna voru bækur eins og Hugmyndir sem breyttu heiminum, Trúarbrögð heims, ljóðabækur og ég veit ekki hvað og hvað.
Ég ákvað að slá í fésið á mér, gerði það, og valdi góða bók fyrir stúdínu frænku.
Og góð bók var það, valin ljóð kvenna, valin af Silju Aðalsteinsdóttir. Ég gekk út með bros á vör og ánægð með sjálfa mig að freistast ekki að eyða þeim peningum sem ekki ég á í bækur. Vonum bara að frænka sé ánægð með afrakstur þessarar harmþrungu búðarferðar.

fimmtudagur, maí 19, 2005

Yndislegur dagur, yndislegt veður og nú væri gaman að vera úti, fylgjast með ungviðinu njóta sumarsins og finna ilminn af nýkomnu sumri. Á meðan aðrir ganga um götur miðborgarinnar, sleikjandi ís með bros á vör, húmir rósin á þjóðarbókhlöðunni og lærir, réttar sagt skrifar ritgerð um gríska málsögu. Gaman saman með grískunni og samanburðarmálfræði. Ég verð hér þó ekki deginum lengra en þar til á morgun, því á morgun ætla ég að komast í sumarfrí, já sumarfrífrí!!
Næsta vika verður fríið mitt, mitt langþráða frí, svo tekur við hin elskulega lokaritgerðin mín. Fyrir ykkur sem ekki vita er ég búin að fresta útskrift, ætla að taka það með trompi með nýjum rektor í október í háskólabíói og taka við plagginu mínu. Ritgerðin verður kláruð í sumar, ójá ójá.
Sumarið er tíminn...

þriðjudagur, maí 17, 2005

Jájá, hún Svanhvít mín komst í tölvuna mína og skrifaði síðustu athugasemdir í mínu nafni. Hún er yndi, liljan mín litla. Við Svanhvít ætlum einmitt að gerast sambýlingar í vetur, ætlum að finna okkur góða íbúð í vesturbænum til að búa í. Við kíktum á úrvalið á netinu í gær, ræddum um búslóðaeignir og hvernig heimilið ætti að líta út.
Ég hlakka svo til, ég hlakka alltaf svo til....

miðvikudagur, maí 11, 2005

Í leti minni í lærdómnum hef ég nú verið að skoða alls konar heimasíður um allt og ekkert. Sit hér með fullt af bókum og glósum til að fara yfir og ætti að vera að lesa fyrir próf, en í stað þess geri ég allt annað en það sem ég á að vera að gera. Kannski að einhver kannist við slíka iðjusemi.
M.a. kíkti ég inn á heimasíðu Heimdallar, félag ungra sjálfstæðismanna og las þar grein eftir ungan mann um togstreituna á milli vinstri og hægri manna. Til þess að forðast enn meir um lærdóminn ákvað ég að tjá mig aðeins um þessa grein hér.
Blessaður ung-lingurinn, ef segja má svo, byrjar á því að tala um bölsýni vinstri-manna, eða það sem hann kallar uppgjafar-sósíalista, og lýsingar þeirra á íslenskum nútíma. Ég er sammála manninum um það að oft er dregin upp svartari mynd af raunveruleikanum en raun ber vitni af stjórnmálamönnum, við höfum það flest okkar mjög gott hér á landi, en alltaf má fara betur.
Mér leiðist þó orðalagið hjá blessuðum drengnum, afturhaldskommatittir, og það með vitlausri fleirtöluendingu á þeim sem hann nefnir síðan nútímalegum frjálslyndum jafnaðarmönnum. Hann segir að þessi flokkur manna kenni kapítalismanum um allt illt í heiminum og séu blindir fyrir þeim framförum sem hafa átt sér stað í landinu síðastliðinn 14 ár. Pjakkurinn segir jafnframt að stjórnlyndi hafi náð tökum á stjórnmálamönnum, jafnt hægri og vinstri, og telur þá vera komna inn á hvors annars svæði með hugmyndafræði, t.d. frelsi einstaklingsins. Völd og peninga telur hann hafa náð tökum á sjálfstæðismönnum sem sitja á þingi og megi það fara til batnaðar hjá blessuðum flokksmönnum.
Fröken leti var bæði sammála og ósammála greinarhöfundi um nokkur mál. T.d. held ég að allir landsmenn geti jánkað við því að framför hafa verið í landinu á vissum sviðum, t.d. efnahagi. En það sem ég tel sjálfstæðismenn, og þá aðallega karlmenn, vera blinda á er mannlegi þátturinn og hlutverk hans í samfélaginu.
Maðurinn segir að núverandi stjórnvöld hafi gert Ísland með því ríkasta ríki í V.-Evrópu frá því að hafa verið með þeim fátækustu. Ég er ekki það fróð um þau mál svo ég læt það liggja milli steina að gagnrýna þá fullyrðingu. En eitt er ég ósátt við, ef Ísland er orðið eitt ríkasta land Vesturheimsins, hví hefur þá fátækt aukist til muna hér á landi? Hann gleymir líka öllum þeim atriðum sem hafa farið aftur á Íslandi og tengist ekki bönkum, fisknum eða fyrirtækjum.
Alvarlegasta vandamál Íslendinga í dag held ég að tengist þeim mannlegu þáttum eins og virðing, samkennd og skilningur. Svo virðist vera að ýmsar starfsstéttir hér á landi séu ekki mikils metnar, t.d. kennarastéttin. Og menntun, hvað finnst sjálfstæðismönnum um menntun? Það hafa þeir sýnt með því að gera t.d. háskólann að lélegri skóla vegna fjárskorts frá ríkinu. Svo vilja þeir leysa vandamálin með því að hver hjálpi sér. Hvernig á t.d. manneskja, sem ekki getur unnið vegna andlegrar eða líkamlegrar vanheilsu, að bjarga sjálfri sér? Og í þokkabót fær hún ekki mikið framlag frá ríkinu til að lifa sómsamlegu lífi.
Pjakkurinn talar um frelsi einstaklingsins og minnka megi afskipti ríksins. En ég spyr á móti, á ríkið gjörsamlega að hafa engin afskipti? Hvenær er einstaklingur svo frjáls að hann geti gert allt sem hann vill? Við erum ekki algjörlega frjáls, við þurfum alltaf að beygja okkur undir lög og reglur samfélagsins. Og þingið setur slík lög, þ.e. þingmenn og þeir sem ráða ríkjum í landinu.
Því tel ég það líka vera hlutverk ríkisins að búa að góðri þjónustu fyrir þegna sína, þ.e. umönnun og fræðslu. Þessir tveir þættir hafa verið algjörlega undir hjá hinum ríku fínu sjálfstæðismönnum.
Þó svo að sjálfstæðismenn hafa gert margt gott fyrir land og þjóð, má ekki gleyma að margt hefur farið aftur og verðum við að bæta það sem betur má fara í málefnum þeim er ég ræddi um hér ofar. Þess vegna höfum við lýðræði og tel það mikilvægt að allar skoðanir manna komi fram á þingi, og hlutverk minnihlutans er að benda á það sem betur má fara af þeim sem stjórna og koma með hugmyndir um aðrar leiðir.
Jæja, lærdómurinn bíður....

þriðjudagur, maí 10, 2005

Á meðan þið kæru lesendur sváfuð værum svefni undir hlýrri sæng, sátum við systur og lukum við lokaritgerð systur minnar í nótt. Ég hef fræðst mikið námsmat í stærðfræði, gæti sagt ykkur frá heildrænu námsmati, lærdómsmiðuðu námi og svindlprófi. Já tímarnir hafa svo sannarlega breyst frá því ég var í grunnskóla, þá var námsmat fremur einhæft og aðeins skrifleg próf notuð til að meta námsgetu manns. Í dag er námsmat mjög fjölbreytt og t.d. eru notuð svindlmiðar til að kenna krökkum glósutækni.
Og á meðan við systur sátum við skriftir í morgunsárinu fór maður systir minnar að bjarga mannslífum, fjölhæf þessi fjölskylda og skilar sínu til samfélagsins.
En nú er smá pása, komin svefntími áður en lokayfirlestur hefst.
Góða nótt...

miðvikudagur, maí 04, 2005

Í gær hlýddi ég prédikun séra Pálma Matthíassonar, sóknarprests í Bústaðarkirkju. Prédikunin var góð, hún fjallaði um það að gefa og þiggja, og svo hamingjuna. Hann talaði um að Íslendingar væru með hamingjusömustu þjóða meðal jarðbúa. Ég fór þá að velta fyrir mér hvernig menn mæla hamingjuna, út frá hverju telur fólk sig hafa öðlast hamingjuna?
Ef Íslendingar eru eins hamingjusamir og þeir segjast vera, af hverju á þá þjóðin heimsmet í notkun geðlyfja? Sá það á fyrirsögn fréttablaðsins í dag að Íslendingar ættu heimsmet í notkun geðlyfja fyrir börn vegna athyglisbrests eða ofvirkni.
Íslendingar verða sífellt meir og meir uppteknir af því að eignast hluti, vinna alltof mikið til þess að eignast flotta húsið í úthverfinu, dýra nýja bílinn og geta gefið börnum sínum allt það sem þau óska eftir. Hver vill ekki eignast allt það sem lífið hefur uppá að bjóða?
En er það fólk hamingjusamt sem á alla þá hluti sem það hefur dreymt um og meira til? Einhver staðar las ég það að ríkt fólk væri mun óhamingjusamara en fátækt fólk.
Með auknum hraða lífsins í hinum vestræna heimi fer minna fyrir hinum mannlegu þáttum og fólk einangrast gríðarlega. Fólk hefur ekki tíma fyrir eitt né neitt, það er svo upptekið að afla pening til að fjármagna eyðslu sína.
Svo enda börnin á lyfjum, enginn hefur hvort eð er tíma til að sinna þeim.
Erum við hamingjusöm þjóð?