Sigurrós

Lífið er dans á rósum!!

mánudagur, júní 27, 2005

Ég á erfiða ákvörðun framundan, ákvörðunin gæti skipt miklum sköpum í lífi mínu hreinlega gjörbreytt því. Ég er búin að velta málinu fram og tilbaka, búin að skoða helstu kosti og galla málsins, bera saman því sem er líkt og ólíkt og kemst engu nær fullnægjandi niðurstöðu. Ég er búin að leita eftir áliti sérfræðinga en er engu nær. Því bið ég ykkur um aðstoð.
Hvort á ég að fá mér Nokia 6320i eða Sony Ericson K700?

miðvikudagur, júní 22, 2005

Lífið, lífið, ó það lífið!!
Ekki hefur verið margt á vegi mér undanfarna daga, en þó viðburðaríkir dagar að vissu leyti. Ýmislegt sem kemur manni á óvart, aðrir hlutir sem hafa angrað sálartetrið alltof lengi. Já lífið er flókið og oft á tíðum óskiljanlegt, hví særa menn hvorn annan? Og hví verða sumir hlutir aldrei breyttir, liggja bara óhreyfðir og valda sorgum og vonbrigðum?
Kannski er það rigningin sem veldur depurð minni, kannski eru það atburðir liðinna daga í fjölskyldunni sem eru orsökin. Hver veit. Vonum bara að með sólskininu skjóti einn sólargeisli brosi á mig og gefi mér kátínuna tilbaka.
Lifið heil.

þriðjudagur, júní 07, 2005

Þó svo að ég sé sloppin frá skólanum í bili er skólinn ekki slopinn frá mér. Í seinustu viku var ég að aðstoða móður mína við lokaverk skólans, fara yfir próf, gefa einkunnir og umsögn og einnig að fara yfir bókmenntaritgerðir sem nemendur hennar höfðu skrifað. Þar má eflaust finna upprennandi rithöfunda eða framamenn framtíðarinnar á öllum sviðum menntunar og atvinnulífs. Já, ef fólk heldur að það sé sældarlíf að vera kennari, think again. Við stöllur sátum fram eftir kvöldi næstum öll kvöld í von um að ná að fara yfir allt og ganga skikkanlega frá öllu. Eftir þennan vetur hef ég fengið betri sýn á það erfiða verka að vera kennari, það er alls ekki auðvelt starf en ég tel samt að það að vera kennari sem mjög gjöfullt og skemmtilegt starf þegar allt kemur til alls. Það er kannski ástæða þess að svo margir halda ótrauðir áfram í mörg mörg ár við kennslustörf sín og láti smáræði eins og illa uppaldna krakka, gargandi foreldra og ósanngjörn fræðsluyfirvöld (oft á tíðum) ekki hafa áhrif á sig.
Núna er ég svo að semja próf fyrir ónefnda aðila, krossapróf um íslenskt mál. Það er vandasamt mál að gera gott og sanngjarnt próf og þó svo að ég telji það stundum auðvelt verð ég að minna mig á að þeir sem taka prófið munu kannski ekki líta þannig augum á það.
En þetta er skemmtilegt, ekki hægt að segja annað. Ég gæti vel séð mig fyrir mér sem kennara og gæti alveg haft gaman af þó svo að ég viti vel af öllum þeim neikvæðu hliðum starfsins. En mér finnst að við ættum að hrósa kennurum meira, láta þá finna að við metum starf þeirra og þá vinnu sem þeir leggja til við að gera nemendur sína að fróðari mönnum.
Og svona í lokin, hún stóra systir mín á afmæli í dag. Hún fer að nálgast þrítugt, aðeins tvö ár í það. Til hamingju með daginn elsku besta systir mín!!